Talstöðvar


Ýmsar gerðir eru af talstöðvum og má þar nefna PMR446, VHF (LMR), UHF LMR og DMR Tier 1-3, TETRA, P25 og PoC.

Þó VHF standi fyrir Very high frequency og eigi við ákveðið tíðniband, er það nokkurnveginn samnefnari fyrir leyfisskyldar tvíátta talstöðvar sem notaðar hafa verið á Íslandi í áratugi af björgunarsveitum, ferðaþjónustufyrirtækjum, verktökum, ferðahópum svo sem FÍ, Ferðaklúbbnum 4×4, meðlimum LÍV og fleirum. VHF fjarskipti eru svo til einu fjarskiptin sem virka á ákveðnum stöðum á hálendinu þar sem hvorki er TETRA né símasamband, og drægni þeirra getur aukist enn með notkun endurvarpa.

VHF getur hentað til dæmis fyrirtækjum í ferðaþjónustu, verktökum sem vinna á staðbundnum svæðum þar sem símasamband er takmarkað. Hámarkssendistyrkur á VHF talstöð er 25W, en flestar handstöðvar eru á bilinu 4 til 8W

PMR446 eru talstöðvar á UHF tíðnisviðinu sem opnar eru öllum. Engin leyfi þarf til að nota PMR446 talstöðvar en sendistyrkur takmarkast við 0.5W og er því skammdrægara en t.d leyfisskyldar talstöðvar. Í góðri sjónlínu getur drægni verið á bilinu 1-15 km eftir aðstæðum. Þessar stöðvar geta hentað t.d. gönguhópum eða fólki sem ferðast saman og vill ná sambandi milli bíla stuttar vegalengdir. Einnig gæti þetta hentað litlum fyritækjum sem hafa þurfa samband við starfsmenn í grend við höfuðstöðvarnar. Helsti kostur þessa kerfis er enginn auka kostnaður vegna leyfa, en ókostur er skammdrægni og aðrir notendur geta verið að nota sömu rásir.

DMR Tier I er stafræn útfærsla af PMR446 og getur í sumum tilfellum hentað betur og haft meiri drægni.

DMR Tier II er síðan stafræn útgáfa af VHF eða UHF leyfisskyldum stöðvum. Þessar stöðvar hafa hærri sendistyrk en t.d. PMR446, notandinn er með sér tíðni úthlutaða fyrir sig og tveir geta talað saman á sömu tíðni (þó ekki sömu rás) samtímis. Hægt er að setja upp endurvarpa og eins er hægt að samtengja tvo eða fleiri endurvarpa yfir IP samskipti og þar með ná mikilli dreifingu á stóru svæði, eða samtengja svæði sem eru fjarri hvoru öðru. Þetta kerfi getur t.d. hentað verktökum sem vinna á tveim eða fleirum svæðum sem ekki eru á sama svæði en þurfa að geta haft samskipti sín á milli. Kosturinn við þessi kerfi umfram hefðbundin VHF/UHF kerfi er að tal verður almennt skýrara, talstöðvar eru minna viðkvæmar fyrir truflunum og hægt er að vera með fleiri rásir á sömu tíðni.

TETRA er það kerfi sem viðbragðsaðilar á Íslandi og víðast hvar í Evrópu reiða sig á. Þetta kerfi getur hentað í mörgum tilfellum þar sem TETRA er nánast landsdekkandi kerfi.

PoC stendur fyrir PTT over Cellular, sem þýðir í raun að notað er hefðbundið farsímakerfi eða yfir netið, en í talstöðvarham. Kosturinn við þetta kerfi er að engin þörf er á að byggja upp sér innviði til að koma upp landsdekkandi samskiptum og hægt er að nota snjallsíma til að tengjast kerfinu. Þar sem þessi lausn býður uppá samskipti yfir bæði WiFi og LTE (farsímakerfi) er oft hægt að samþætta þessa lausn öðrum kerfum, svo sem DMR með litlum tilkostnaði. Ókosturinn er að ef kerfið liggur niðri, svo sem vegna rafmagnsleysis eða náttúruhamfra, þá virkar það ekki eða hefur takmarkaða virkni.

PoC / DMR eru lausnir sem samþætta kosti PoC og DMR, og geta því boðið uppá landsdekkandi samskipti yfir netið í gegnum LTE eða WiFi en boðið uppá staðbundna þjónustu milli stöðva (eða í gegnum endurvapra) þegar þörf krefur, svo sem vegna víðtæks rafmagnsleysis eða annara bilanna í netkerfi.

Fyrirtæki hafa mismunandi notkunarsvið og getur því oft verið flókið að átta sig á því hvaða lausn hentar hverjum fyrir sig, því getur verið gott að leita til fagmanna þegar finna á rétta lausn. Við getum aðstoðað þitt fyrirtæki við val á réttri lausn og uppsetningu ásamt þjálfun á búnaðinn.